Lýstar kröfur í þrotabú Primera Air nema um það bil 10 milljörðum króna. Þetta staðfestir skiptastjóri búsins, Eiríkur Elís Þorláksson, í frétt RÚV um málið.

Eins og þekkt er fór Primera Air í gjaldþrot í upphafi októbermánaðar síðastliðins. Rétt fyrir jól voru svo þrjú félög tengd flugfélaginu tekin til gjaldþrotaskipta: PTG ehf, áður Primera Travel Group; PI ehf, áður Primera ehf og PA holding ehf.

Ekki hefur komið fram hverjir kröfuhafar eru, en í yfirlýsingu Arion banka í kjölfar gjaldþrotsins kom fram að tap bankans vegna málsins gæti numið hátt í tveimur milljörðum.

Þá kemur fram í frétt RÚV að engin ákvörðun hafi verið tekin um riftunarmál í tengslum við þrotaskiptin, en það sé til skoðunar.