Amazon, fyrirtæki sem þekktast er fyrir rekstur netverslunar, hyggst reisa aðrar höfuðstöðvar til viðbótar við þær sem það heldur úti í Seattle. Rúmlega 100 borgir í Bandaríkjunum hafa lýst yfir áhuga á að vilja fá höfuðstöðvarnar til sín, en í þeim munu um 50.000 manns starfa og er áætlað að fjárfest verði í þeim fyrir 5 milljarða dollara, ríflega 500 milljörðum króna.

Meðal borga sem hafa lýst yfir áhuga eru Boston, Miami, Austin, Dallas/Fort Worth & El Paso í Texas, Chicago, Clevland & Cincinnati í Ohio, Oklahomaborg, Salt Lake í Utah og margar fleiri.

Í frétt á vef BBC segir að fyrirtækið horfi meðal annars á eftirfarandi atriði við valið:

  • Þéttbýli þar að minnsta kosti milljón býr
  • Stöðugt umhverfi sem sé hliðhollt atvinnulífinu
  • Nálægtð við alþjóðaflugvelli og góðar vegtengingar
  • Gott aðgengi að almenningssamgöngum
  • Borgarumhverfi sem er líklegt til að laða að sér og halda í tæknimiðað starfsfólk
  • Samfélög sem hugsa skapandi og stórt þegar kemur að staðsetningu og möguleikum á húsnæði.

Borgir hafa lagt ýmislegt á sig til að ná athygli Amazon. Þannig hefur New Jersey boðið Amazon 7 milljarða dala skattaafslætti, um 700 milljarða króna, ef fyrirtækið kemur þangað. Aðrir hafa farið óhefðbundnari leiðir. Þannig sendu borgaryfirvöld í Tucson í Arizona tæplega sex og hálfs meters háan kaktus til fyrirtækisins, á meðan borgarstjórinn í Kansas.keypti 1.000 vörur á Amazon og lofaði borgina í umsögnum um þær.