1.141 einstaklingur með háskólamenntun var í lok janúar á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar. Stofnunin segir það óþægilega staðreynd en samtals voru 4.665 atvinnulausir í lok janúar.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að í janúar hafi 150 viðskiptafræðingar verið atvinnulausir og 54 lögfræðingar. Þá voru 33 kennarar atvinnulausur, 18 verk- og tæknifræðingar og 13 með félagsfræðimenntun. Auk þess voru 876 einstaklingar með háskólamenntun af öðru tagi.

Vinnumálastofnun óskar því eftir að sumarstörf muni standa fyrrnefndum atvinnuleitendum til boða og möguleikar séu á því að með hverjum sem ráðinn er fylgi starfsþjálfunarstyrkur sem næmi annað hvort hálfum eða fullum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði en fullar bætur eru nú 227.417 krónur.

Niðurstöður úr þjónustkönnun Vinnumálastofnunar leiddu í ljós að 70% þeirra sem ráðið hafa fólk til sín af atvinnuleysiskránni eru ánægðir með ráðninguna (hlutfallið er enn hærra meðal þeirra sem ráðið hafa fólk með skerta starfsgetu til sín).