Kostnaður Reykjavíkurborgar við gerð kynningarritsins „Uppbygging íbúða í borginni" nam 11.705.300 króna, án virðisaukaskatts. Þetta kemur fram í svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn sem Viðskiptablaðið sendi borginni fyrir fjórum vikum.

Ráðgjafarfyrirtækið Athygli sá um umsjón og ritstjórn, efnis- og myndöflun, textaskrif, uppsetningarvinna með umbrotsmanni, leiðréttingar, frágangur og fundir/samskipti við verkkaupa og aðra og nam kostnaður vegna vinnu fyrirtækisins 3,7 milljónum króna.

Ritform ehf. sá um hönnun og umbrot og nam kostnaður vegna þess 1,6 milljónum króna. Ritið var prentað í 60.500 eintökum hjá Ísafold Prentsmiðju og nam kostnaður vegna prentunar 3,9 milljónum króna, samkvæmt tilboði. Póstdreifing dreifði 60.089 eintökum ritsins til heimila á höfuðborgarsvæðinu og nam kostnaður ríflega 2,1 milljón króna, samkvæmt tilboði.

Ritið gagnrýnt á samfélagsmiðlum

Rit borgarinnar, sem taldi 64 blaðsíður, vakti töluverða athygli þegar það kom út. Á samfélagsmiðlum var borgin meðal annars gagnrýnd fyrir að nýta opinbert fé í pólitískum tilgangi, en sveitarstjórnarkosningar fara fram næsta vor. Þá þótti einhverjum netverjum prentuð útgáfa borgarinnar skjóta skökku við áherslu borgarinnar á umhverfismál og aðrir veltu því fyrir sér hvers vegna ritinu væri dreift til íbúa annarra sveitarfélaga, á kostnað útsvarsgreiðenda í borginni.

Á hinn boginn bentu jákvæðari netverjar á að um eðlilega upplýsingagjöf væri að ræða og með því að gefa blaðið út á prentformi mætti ná til íbúa sem ólíklega nýttu sér stafræna útgáfu.

Ritið var, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst, fyrst gefið út árið 2017 en kostnaður við útgáfuna nam þá tæpum 5 milljónum króna , en á þeim tíma skapaðist jafnframt umræða um pólitískan tilgang ritsins en þá voru Alþingiskosningar skammt undan og húsnæðismál fyrirferðarmikil í aðdraganda kosninganna.