Lífland ehf. hagnaðist um 123 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 115 milljónir árið á undan. Rekstrartekjur félagsins voru 4,85 milljarðar í fyrra og 4,59 milljarðar króna árið á undan. Þá jukust rekstrargjöld úr 4,5 milljörðum króna í 4,54 milljarða króna milli áranna. Þar af voru laun og launatengd gjöld 731 milljón króna árið 2017.

Eignir fyrirtækisins voru um 5,8 milljarðar á síðasta ári og nam eigið fé 1,46 milljörðum króna. Á síðasta ári voru heildarskuldir fyrirtækisins 4,3 milljarðar króna. Þar af voru langtímaskuldir 2,95 milljarðar og skammtímaskuldir námu 1,38 milljörðum króna. Stjórn Líflands leggur til að greiddur verði arður til hluthafa að fjárhæð 10 milljóna króna á þessu ári.

Í mars á síðasta ári keypti framtakssjóðurinn Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa 50% hlut í fyrirtækinu. Samkvæmt ársreikningi framtakssjóðsins fyrir árið 2017 er hluturinn metin á 662 milljónir króna.

Lífland framleiðir fóður og selur rekstrarvörur til landbúnaðar, malar og selur Kornax hveiti og aðrar tengdar vörur og rekur einnig sex sérverslanir fyrir hestamenn og bændur víðsvegar um landið.