Flugmaður bandaríska flugfélagsins Delta hefur höfðað mál gegn félaginu þar sem hann telur það hafi stolið hugmynd að smáforriti sem hann hafði þróað og krefst milljarð dollara, um 124 milljarða króna, fyrir. Bloomberg greinir frá.

Flugmaðurinn Craig Alexander, sem hefur starfað hjá félaginu í 11 ár, þróaði smáforrit sem að gerir áhafnarmeðlimum kleift að tala sín á milli og var talið sérstaklega gagnlegt í kjölfar raskana á flugi. Hann hafði eytt rúmum 100 þúsund dollurum, um 12 milljónum króna, af sínu eigin fé við þróun á forritinu.

Í ágúst 2016 varð fimm klukkutíma rafmagnsbilun til þess að aflýsa þurfti hundruðum fluga sem kostaði Delta um 150 milljónir dollara. Flugmaðurinn sagðist hafa lausn á þessu og fundaði í kjölfarið með forsvarsmönnum þess sem höfnuðu hugmyndinni að forritinu. Nokkru síðar hafði flugfélagið þróað sitt eigið forrit sem, að sögn flugmannsins, var nákvæmlega eins.

Í málsókninni segir hann að forritið hafi þegar sparað flugfélaginu yfir milljarð dollara. Þá krefst hann einnig refsibóta þar sem hann telur sig hafa orðið fyrir niðurlægingu og sálrænum skaða þar sem að hann neyðist til að nota afbökun af sínu eigin forriti hvern einasta dag.