Markaðsvirði skuldabréfa sem bera neikvæða vexti nemur nú rúmlega 12.500 milljörðum dollara eftir vaxtalækkanir í síðustu viku sem komu í kjölfarið á ummælum Mario Draghi, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, sem þóttu gefa vísbendingar væru um að bankinn myndi hefja magnbundna íhlutun á nýjan leik. Varð þetta til þess að vísitala Bloomberg yfir neikvæða vexti náði nýjum hæðum frá því sem hún stóð hæst í apríl 2016 þegar markaðsvirðið nam ríflega 12.000 milljörðum dollara. Samkvæmt frétt Financial Times hefur markaðsvirði skuldabréfa á neikvæðum vöxtum ríflega tvöfaldast frá því í október á síðasta ári.

Áhyggjur hafa verið uppi á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum um að hagvöxtur í heiminum sé að fjara út og því hafa fjárfestar veðjað á að seðlabankar í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu muni slaka enn frekar á peningastefnu sinni til þess að koma í veg fyrir samdráttarskeið. Þá hefur viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína einnig orðið til þess að auka ótta fjárfesta sem hefur orðið til enn frekar vaxtalækkana.

Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa stendur nú í tæplega 2% og hefur lækkað um ríflega 1,2 prósentustig frá því í nóvember og hefur ekki verið lægri frá í 2 ár. Þá er ávöxtunarkrafa 10 ára þýskra ríkisskuldabréfa neikvæð um 0,3%  og hefur lækkað um rúm 0,8 prósentustig frá því í október á síðasta ári. Raunar þarf að fara allt að 20 ára bréfum til að finna jákvæða nafnvexti á þýsku vaxtakúrfunni þar sem 20 ríkisvextir eru 0,08% en hafa þó lækkað um 0,8 prósentustig á frá því fyrir ári síðan. Þessu til viðbótar fóru 10 ár sænsk og frönsk ríkisskuldabréf undir 0% í fyrsta skipti í sögunni.

Búist er við því að Seðlabanki Bandaríkjanna muni lækka stýrivexti þrisvar sinnum á þessu ári en bankinn stöðvaði vaxtahækkunarferil sinn í byrjun þessa árs eftir að hafa hækkað vexti um 2 prósentustig frá desember 2015 til desember 2018. Þá þótti orð Mario Draghi gefa vísbendingar um að evrópski seðlabankinn muni lækka vexti enn frekar en stýrivextir bankans eru í dag 0% auk þess að bankinn muni hefja skuldabréfakaup sín að nýju til þess að ná verðbólgu á evrusvæðinu upp að 2% verðbólgumarkmiði bankans.