Rúmlega 1,3 milljarður manns ferðaðist milli landa í fyrra, 7% fleiri en árið áður, og fleiri en nokkru sinni fyrr, samkvæmt frétt á vef Túrista . Ferðaþjónusta velti samtals 1,6 þúsund milljörðum Bandaríkjadala í heiminum, um 180 þúsund milljörðum króna.

Ferðamönnum hefur ekki fjölgað jafn mikið milli ára síðan 2010, en þeir voru 84 milljónum fleiri í fyrra en árið áður. Mestur hlutfallslegur vöxtur var í Evrópu og Afríku.

Hlutur Kínverja í veltu ferðaþjónustunnar vex hratt, og er nú um fimmtungur heildarveltu. Frakkland er sem fyrr vinsælasti áfangastaðurinn með 83 milljón heimsækjendur, en Spánn og svo Bandaríkin vermdu næstu tvö sæti á eftir.

Þá kemur fram að ferðamönnum fjölgaði um 6% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs, samanborið við árið áður.