Fjöldi flughreyfinga og farþegahreyfinga á Keflavíkurflugvelli dróst saman um 13% í marsmánuði, miðað við sama mánuð í fyrra að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Á sama tímabili sýnir talning farþega úr landi 7% samdrátt í farþegafjölda frá árinu áður, þar sem brottförum íslenskra ríkisfanga fækkaði um 24% á meðan brottförum erlendra ríkisfanga fækkaði um 2%.

Áætlar hagstofan að af þessum brottförum hafi ferðum ferðamanna, það er þeir sem gista eina nótt í landinu eða meira, fækkað um 2%, eða úr 154.546 í 152.218.

Ef horft er til febrúarmánaðar í ár miðað við fyrir ári sést að samdráttur í gistinátta á hótelum og gistiheimilum er um 2% á milli ára, úr 424,6 þúsund í 418 þúsund meðan aðrar tegundir skráðra gististaða sáu 1% samdrátt, úr 100,6 þúsund í 101,2 þúsund.

Á sama tíma jókst framboð hótelherbergja um 7%, úr 9.516 í 10.185, sem þýðir að nýting þeirra minnkaði úr 73% í 66%. Umferð á hringveginum jókst hins vegar á öllum landsfjórðungum nema Austurlandi, þar sem var 1% samdráttur, úr 1.293 bílum á dag um ákveðin mælihlið í 1.275.

Mest var aukningin hins vegar á Vesturlandi, eða 22%, úr 8.808 í 10.765 en næst mest var hún á Suðurlandi, 16%, úr 10.104 í 11.673 bílar á dag. Loks var 9% aukning á Norðurlandi, 4.890 bílar á dag í 5.340 bílar.