Kínverski tæknirisinn Huawei varði 13,8 milljörðum dala í rannsóknir og þróun á síðasta ári en það samsvarar um 1.360 milljörðum króna á gengi dagsins í dag að því er The Financial Times greinir frá .

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru heildarútgjöld hér á landi til rannsókna og þróunar rétt tæpur 51 milljarður króna árið 2016. Því samkvæmt var rannsókna- og þróunarkostnaður Huawei 27-faldur á við heildarútgjöld til málaflokksins hér á landi.

Huawei stefnir að því að auka útgjöld til rannsókna og þróunar enn frekar og áætlað er að þau geti orðið 20 milljarðar dala á ári.

Miðað við nýbirtar tölur Huawei eru það aðeins Amazon og Alphabet sem verja meira fjármagni í rannsóknir og þróun í heiminum.