ÍL- sjóður, sem hét áður Íbúðalánasjóður, tapaði 13,9 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 2,8 milljarða tap árið 2020. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var birtur í dag.

Hreinar vaxtatekjur ÍL-sjóðs, sem er í eigu ríkisins, á árinu voru neikvæðar um 13,4 milljarða. Í skýrslu stjórnar segir að þróun vaxtatekna megi rekja til uppgreiðslna sem hafi haldið áfram á útlánasafni á árinu þrátt fyrir að aðeins hafi hægt á vexti þeirra frá árinu á undan.

„Uppgreiðslur þegar vextir hafa lækkað hafa neikvæð áhrif á þróun vaxtatekna og auka endurfjárfestingaráhættu sjóðsins. Þannig hafa uppgreiðslur leitt til neikvæðs vaxtamunar, en á móti uppgreiðslum hefur sjóðurinn fengið tekjur af uppgreiðslugjöldum sem hefur þó ekki gert sjóðinn skaðlausan. Þá má skýra neikvæðan vaxtamun að miklu leyti af lágum vöxtum af vaxtaberandi eignum öðrum en útlánum samanborið við vaxtagjöld af skuldabréfum sjóðsins sem gefin voru út þegar vextir voru hærri en nú er.“

Í úrvinnsluferli

ÍL-sjóður er í úrvinnsluferli en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra skipaði þriggja manna verkefnisstjórn í síðasta mánuði sem verður til ráðgjafar um úrvinnslu eigna og skulda sjóðsins. Í skýrslu stjórnar segir að engin ný lán séu veitt og er greiðsluflæði af eignum er notað til greiðslu á skuldum ásamt því að veita ríkissjóði lá.

Samtals hefur sjóðurinn veitt ríkissjóði lán að fjárhæð 190 milljörðum króna frá upphafi árs 2020, en á móti hefur eign sjóðsins í ríkisskuldabréfum lækkað úr 122 milljörðum í 52,5 milljörðum. Verulega hafi þó dregið úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og ekki er gert ráð fyrir frekari lánveitingum úr ÍL-sjóði.

„Gert er ráð fyrir að afborgunarferill lána til ríkissjóðs taki mið af þörfum ÍL-sjóðs til að standa skil á greiðslu af skuldum sínum og mun ríkissjóður greiða verðtryggð kjör í takt við kjör á útgefnum ríkisskuldabréfum.“

Núvirt framtíðartap um 230 milljarðar

Fram kemur í fjármálaáætlun 2023-2027 að verði sjóðurinn rekinn út líftíma skulda, og að gefnum forsendum um þróun vaxta og verðbólgu, má gera ráð fyrir að núvirt framtíðartap geti verið um 230 milljörðum króna. Þá segir að sjóðurinn eigi nægt laust fé til að mæta afborgunum skulda samkvæmt áætlunum til 2034.

Eignir ÍL-sjóðs námu 669 milljörðum króna í árslok 2021, samanborið við 703 milljarða í lok árs 2020. Eigið fé sjóðsins var neikvætt um 197 milljarða og skuldir námu 865 milljörðum.

Í framangreindri fjármálaáætlun kemur fram að langstærsti hluti útistandandi ábyrgða ríkissjóðs eru vegna ÍL-sjóðs eða um 85%. Eftirfarandi töflu má finna í fjármálaáætluninni: