Dómstóll í Bretlandi hefur vísað frá hópmálsókn á hendur kreditkortafyrirtækinu MasterCard. Samkvæmt frétt Reuters kröfðust stefnendur þess að fyrirtækið myndi endurgreiða um 14 milljarða punda fyrir að taka of háar þóknanir af rúmlega 45 milljón manns á 16 ára tímabili. Samkvæmt lögmanni hópsins er það til skoðunar að áfrýja málinu

Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að málatilbúnaður stefnenda uppfyllti ekki þau skilyrði sem til þarf til að taka málið fyrir sem hópmálsókn. Ef málinu hefði verið hleypt í gegn hefði það verið stærsta og flóknasta dómsmál í breskri réttarsögu. Þá hefði málið einnig reynt mjög á ný neytendalög sem sett voru í Bretlandi árið 2015.

Snerist málið að miklu leyti um færslugjöld sem kortafyrirtæki rukka söluaðila um. Vildu stefnendur meina að gjöldin hafi orðið til þess að söluaðilar hafi látið gjaldið renna út verðlagið og hafi þar með hækkað verð á vörum til allra viðskiptavina, þ.e. líka þeirra sem greiddu ekki fyrir vörur með MasterCard.

Samkvæmt frétt Reuters fagnar MasterCard niðurstöðu dómsins. Sagði fyrirtækið að ákæran hafi ekki á nokkurn hátt uppfyllt skilyrði hópmálsóknar. Í janúar síðastliðnum komst hæstiréttur í London að því að MasterCard hafi innheimt færslugjöld með löglegum hætti og hafi ekki haft áhrif á verðlag þegar smásalar höfðuðu svipaða málsókn á hendur fyrirtækinu.