Rekstrarhagnaður fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax á síðasta ári nam 100 milljónum norskra króna, andvirði tæplega 1,4 milljarða íslenskra króna. Þetta má lesa úr ársreikningi norska móðurfélagsins SalMar AS sem birtur var í gær og Viðskiptablaðið fjallar um í blaði sínu sem kom út í morgun, en félagið eignaðist meirihluta í Arnarlaxi í upphafi síðasta árs.

Tekjur Arnarlax í fyrra námu 627 milljónum norskra króna og jukust um ríflega helming. Þó verður að gera þann fyrirvara við samanburðinn þar sem tölum frá fyrra ári hefur ekki verið breytt vegna yfirtökunnar.

Félagið slátraði 9,8 þúsund tonnum af laxi á liðnu ári sem er aukning um 3,1 þúsund tonn. Þrátt fyrir afföll vegna óveðurs í upphafi árs er gert ráð fyrir 12 þúsund tonnum af fiski í slátrun í ár.

Í umfjöllun mbl.is um ársreikninginn er talað um að norska móðurfélagið ætli að greiða út um 33 milljarða króna arð á þessu ári.

Jafnframt kemur þar fram að hægt er að skipta rekstrarniðurstaðöðunni niður á framleitt kíló, og hafi hún þannig verið jákvæð um 139 krónur árið 2019 en neikvæð um 161 krónu árið 2018.