Upphaf fasteignir ehf., dótturfélag Upphafs fasteignafélags sem er í eigu sjóðs í stýringu hjá Gamma, skilaði tæplega 1,5 milljarða króna tapi á síðasta ári en árið áður nam tapið 887 milljónum króna. Rekstrartekjur námu 2,3 milljörðum króna og minnkuðu um 1,5 milljarða frá fyrra ári. Eignir námu tæplega 12 milljörðum króna í árslok 2019 og eigið fé var neikvætt um 1,2 milljarða króna.

Fyrir tæplega ári var greint frá því að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri Gamma væri umtalsvert verri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Annar sjóðanna, Gamma: Novus, hefur fjárfest í fasteignaþróunarverkefnum í gegnum fyrrnefnt Upphaf fasteignafélag. Eftir að Kvika banki tók yfir rekstur Gamma í fyrra kom í ljós að eignir fasteignafélagsins voru ofmetnar og vegna þessa var virði eigin fjár félagsins lækkað úr 5,2 milljörðum niður í 40 milljónir.