Fé­lagið Einn á móti X ehf. var í Lands­rétti fyrir helgi dæmt til að greiða frí­stunda­byggðinni Ásum 15 þúsund krónur. Dæmd fjár­hæð í Lands­rétti var þriðjungur af því sem héraðs­dómur kvað á um en við upp­hæðina bætast 800 þúsund krónur í máls­kostnað. Alls hefur mála­reksturinn kostað fé­lagið 1.800 þúsund í máls­kostnað til gagn­aðila.

Um­rædd frí­stunda­byggð er í landi Fells í Blá­skóga­byggð en lögum sam­kvæmt er eig­endum sumar­húsa lög­skylt að eiga aðild að fé­lagi eig­enda. Um­rætt fé­lag af­réð fyrir nokkru að setja upp hlið að sumar­húsa­lóðunum og senda reikning fyrir því á fé­lags­menn. Þann reikning vildi Einn á móti X ekki greiða – rétt er að geta þess að því var gert með dómi að greiða 15 þúsund krónur vegna þess – og lýsti eig­andi þess því yfir að hvorki hann né fé­lagið væru lengur fé­lags­menn í Ásum.

Dóms­málið nú varðaði skyldu fé­lagsins til að greiða ár­gjald til Ása, 15 þúsund krónur ár hvert, en Einn á móti X taldi sér ekki skylt að greiða það með vísan til fé­laga­frelsis­á­kvæðis stjórnar­skrárinnar. Þá var einnig byggt á sýknu sökum aðildar­skorts þar sem fé­lagið hefði leigt lóðina á­fram til eig­anda síns og þar með ætti eig­andi fé­lagsins, en ekki fé­lagið sjálft, að standa skil á gjaldinu. Ekki var fallist á það í héraði og fé­lagið dæmt til að greiða þriggja ára ár­gjöld auk milljónar í máls­kostnað til gagn­aðila.

Í dómi Lands­réttar segir að ekkert bendi til þess að á­kvörðun um ár­gjöld hafi verið tekin með ó­lög­mætum hætti. Þá væri ekki með neinu móti sýnt fram á að Ásar hefðu sýnt af sér ó­lög­mæta hátt­semi eða farið út fyrir hlut­verk sitt og þaðan af síður hvernig slíkt ætti að leiða til þess að ekki væri heimilt að inn­heimta gjaldið. Enn fremur væri engin á­stæða til að ætla að skyldu­aðild að fé­laginu væri ó­sam­ræman­leg stjórnar­skránni.

Lands­réttur féllst aftur á móti á að árin 2017 og 2018 hefði eig­andi Einn á móti X verið um­ráða­maður lóðarinnar og þar með væri ekki unnt að krefja fé­lagið um greiðslu ár­gjalda vegna þeirra ára. Ásar höfðu ekki á­frýjað dómi héraðs­dóms hvað eig­anda Eins á móti X varðaði og var því hafnað að kröfur gagn­vart honum kæmust að fyrir dóminum. Var Einn á móti X því að­eins dæmt til að greiða ár­gjald ársins 2016, alls 15 þúsund krónur.

Sem fyrr segir var Einn á móti X dæmt til að greiða eina milljón króna í máls­kostnað í héraði og nú bætast við 800 þúsund krónur fyrir Lands­rétti. Máls­kostnaður fé­lagsins er því 120-falt hærri en hin dæmda fjár­hæð. Máls­kostnaður milli eig­anda fé­lagsins og Ása var aftur á móti látinn falla niður fyrir Lands­rétti. Við það bætist sennilega þóknun til eigin lögmanns.