Áætlað er að tapaður virðisauki, það sem starfsemi skilar upp í laun og hagnað, ferðaþjónustunnar vegna faraldursins hafi verið allt að 149 milljarðar króna. Þetta kemur fram í skýrslu sem Ferðamálastofa lét gera.

Í rannsókninni var áætlað að verg landsframleiðsla hefði verið 3.071 milljarður króna og hlutur ferðaþjónustunnar af landsframleiðslu hefði verið 9%. Forsendur áætlunarinnar eru þær að faraldurinn hefði aldrei skollið á og fjöldi erlendra ferðamanna hingað til lands hefði verið í samræmi við spár, um 2 milljónir manns.

Sjá einnig: Samdráttur VLF 6,6% á síðasta ári

Á árunum 2010 til 2016 var stöðugur vöxtur í virðisauka í ferðaþjónustunni en á árunum 2017 til 2019 varð nokkur stöðnun í þessum vexti. Heildarvirðisauki í ferðaþjónustunni var um 120 milljarðar króna árið 2010 og var orðinn um 260 milljarðar árið 2016, um 160% aukning. Á tímabilinu 2017 til 2019 var aukningin undir tíu prósentustigum.

Í skýrslunni segir að virðisauki og hagnaður á hvern ferðamann hafi dregist saman á ári hverju allt frá 2010 og til 2017 og 2018. Því var ljóst að ferðaþjónustan var rekstrarlega í erfiðri stöðu og illa í stakk búin til að takast á við niðursveiflu í hagkerfinu sérstaklega í kjölfar mikils samdráttar í eftirspurn í kjölfar COVID-19.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu fengu úthlutað um 65% af öllum úrræðum stjórnvalda til rekstraraðila, utan sjálfkrafa frestunar á skattgreiðslum á síðasta ári. Þá fóru um 44% af hlutabótum ársins til starfsmanna í ferðaþjónustunni. Þá fengu fyrirtæki í gistirekstri mesta fjármagnið, um 19,2%, vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til ferðaþjónustunnar.

Á síðasta ári varð 76% samdráttur í komum erlendra ferðamanna hingað til lands. Um hálf milljón heimsóttu landið og þar af komu um 350 þúsund manns fyrstu þrjá mánuði ársins. Störfum í ferðaþjónustu fækkaði um helming og framboð flugsæta dróst saman um 77%.