Samkvæmt vetraráætlun Icelandair mun félagið fljúga til 25 áfangastaða í millilandaflugi á tímabilinu 1. október til 31. mars. Frá Keflavíkurflugvelli flýgur félagið til 23 áfangastaða, 15 í Evrópu og átta í Norður-Ameríku en auk þess er flug frá Reykjavíkurflugvelli til tveggja áfangastaða á Grænlandi. Þannig stefnir félagið á að bjóða upp á um 160 ferðir á viku frá Íslandi í vetur, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Þar segir að flugfélagið hafi aukið framboð jafnt og þétt síðustu mánuði og yfir háannatímann í sumar voru vikulegar brottfarir um 200 talsins. Aukin Covid-smit og hertari sóttvarnarreglur hafi þó gert það að verkum að eftirspurn eftir flugi sé minni en gert var ráð fyrir þegar uppgjör annars ársfjórðungs var birt þann 22. júlí. Þá gerði félagið ráð fyrir að flugframboð í vetraráætlun 2021-2022 gæti náð um það bil 70-80% af framboði sama tímabils árið 2019, síðasta heila rekstrarárs fyrir heimsfaraldur.

Icelandair gerir þó ráð fyrir að framboðið frá október til desember um 65% af framboði sömu mánaða árið 2019 og í janúar til mars 2022 verði hlutfallið um 75%. Til samanburðar var framboðið í nýliðnum ágústmánuði 50% af framboðinu í ágúst 2019.

„Með þessum breytingum vill Icelandair einbeita sér að því að halda uppi öflugri áætlun á áfangastaði með sterka eftirspurn.“

Vetrarhlé verður gert á flugi til áfangastaða þar sem eftirspurnin hefur ekki náð sér jafn vel á strik, þar á meðal Helsinki, Glasgow, London Gatwick, Minneapolis og Portland. Haft verður samband við þá farþega sem eiga bókað flug á þessa staði og þeim boðnar aðrar leiðir til að komast á áfangastað.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við höfum verið í stöðugri uppbyggingu og aukið flugið jafnt og þétt undanfarnar vikur og höldum ótrauð áfram á þeirri vegferð, þó við þurfum nú að draga örlítið úr í takt við breytingar á eftirspurn. Við erum sem fyrr viðbúin því að eftirspurn muni halda áfram að sveiflast í takt við stöðuna á hverjum tíma og munum halda áfram að nýta þann sveigjanleika sem við höfum til að aðlaga áætlunina okkar eftir því sem þörf er á.“