Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,47% í dag og stendur í 1.772,77 stigum en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 4,4 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,12% og stendur því í 1.362,64 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 17,4 milljörðum króna.

Mest hækkun var á bréfum Icelandair eða 1,58% en viðskipti með bréfin námu tæpum 380 milljónum króna og stóðu þau því í 16,05 krónum við lok dags. Icelandair birti uppgjör fjórða ársfjórðungs eftir lokun markaða en tap félagsins á fjórðungnum tvöfaldaðist milli ára líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Þá hækkuðu bréf Regins næst mest eða um 1,15% en við lokun markaða stóðu þau í 26,30 krónum. Viðskipti með bréf fasteignafélagsins námu tæpum 269 milljónum króna.

Aðeins þrjú félög lækkuðu en mest lækkuðu Fjarskipti, móðurfélag Vodafone en í óverulegum viðskiptum. Næst mest lækkaði HB Grandi eða um 1,24% en þriðja félagið sem lækkaði var Tryggingamiðstöðin sem lækkaði um 0,44%.

Þá voru mest viðskipti með bréf Marel, en þau námu rúmum tveimur milljörðum króna en bréf félagsins stóðu þó í stað í viðskiptum dagsins og gengi þeirra því áfram 364,00 krónur.