Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Bylgju Hauksdóttur til að greiða rúmlega 178 milljónir króna í sekt fyrir að vantelja tekjur sem hún hafði frá Sæmark-Sjávarafurðum. Bylgja var einnig dæmd til 20 mánaða fangelsisvistar en sú mun falla niður haldi hún skilorð í tvö ár.

Samkvæmt ákæru vanframtaldi Bylgja tekjur sínar um rúmlega 196 milljónir króna á tekjuárunum 2011-2016. Með því komst hún hjá því að greiða um 89 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar en þar af var útsvar um 26,5 milljónir króna. Þá var hún einnig ákærð fyrir peningaþvætti fyrir að hafa nýtt ávinningin af brotunum í eigin þágu.

Fyrir dómi játaði Bylgja brot sín en slíkt hið sama hafði hún gert á rannsóknarstigi málsins. Í fyrra óskaði hún eftir því að skattar hennar yrðu endurákvarðaðir hið fyrsta svo hún gæti gert upp við ríkið það sem vangreitt hafði verið. Hefur það þegar verið gert.

Sjá einnig: Meint milljarðabrot Sigurðar og Sæmarks

Fyrir dómi sagði hún enn fremur að hún iðraðist brota sinna og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins ber henni að sæta fangelsisvist í eitt ár. Ekki var hún dæmd til greiðslu sakarkostnaðar þar sem verjandi hennar afsalaði sér þóknun vegna málsins.

Þetta er annar dómurinn í málum er varða Sæmark en í október í fyrra var Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hellissands, dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa gefið út ranga kreditreikninga til Sæmarks. Var honum gert að greiða rúmlega 36 milljón króna sekt í ríkissjóð vegna þessa.

Sæmarks málið er eitt umfangsmesta skattalagarannsókn í íslenskri sögu en samkvæmt skattrannsóknarstjóra er áætlað að samanlagður vanframtalinn skattstofn Sigurðar Gísla Björnssonar, sem var eitt sinn einn eigenda og stjórnandi félagsins, og félagsins sjálfs nemi tæplega tveimur milljörðum króna. Krafan á hendur Sigurði Gísla persónulega nemur tæpum 1.200 milljónum króna.