Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs skilaði 1,83 milljarða dollara hagnaði á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður bankans á fyrri helmingi þessa árs nam því 3,03 milljörðum dollara. Tekjur Goldman á fyrsta helmingi þessa árs námu 15,9 milljörðum dollara og jukust um 12% frá sama tímabili í fyrra. BBC greinir frá.

Það sem vekur helst athygli í milliuppgjöri bankans er að tekjur af skuldbréfamiðlun drógust saman um 40%. Tekjur af þóknunum vegna hluta- og skuldabréfamiðlunar drógust saman um 10% á fyrri helmingi ársins og hafa ekki verið lægri síðan Lloyd Blankfein tók við sem forstjóri fyrir 11 árum síðan.

Þrátt fyrir að tekjur af verðbréfamiðlun hafi lækkað voru tekjur frá öðrum einingum bankans hærri en greiningaraðilar Bloomberg höfðu gert ráð fyrir. Tekjur af fjárfestingabankastarfsemi voru 1,73 milljarðar dollara en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir tekjum upp á 1,59 milljarða. Þá voru tekjur af fjárfestingastýringu, fjárfestinga- og lánastarfsemi bankans einnig hærri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Gegni hlutabréfa Goldman Sachs hefur lækkað um 0,72% það sem af er degi.