Í heildina hafa 3.087 sýni vegna Covid 19 veirusýkingarinnar, sem talin er eiga uppruna sinn í Wuhan borg í Kína og breiðist nú hratt um heimsbyggðina, í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna. Þar af hafa 1.800 þeirra verið greind hjá Íslenskri erfðagreiningu, og þar af einungis 19 verið reynst jákvæð við veirunni, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.

Það þýðir að 1,05% af tölfræðilegu þýði þeirra sem hafi verið rannsakaðir séu smitaðir og telur fyrirtækið því að aðgerðir heilbrigðisyfirvalda til að stemma stigu við útbreiðslunni hér á landi vera að bera árangur.

Kári Stefánsson forstjóri fyrirtækisins kom því boði á framfæri við stjórnvöld fyrr í mánuðinum að fyrirtækið sæi um almenna skimun í samfélaginu til að meta útbreiðslu veirunnar sem talin er hafa leitt þúsundir til dauða víða um heim.

Í gær kom fram í samtali við Kára á mbl.is , að tíðni sýkinga þá hafi verið 0,73%, sem honum kæmi ekki á óvart að myndi lækka enda líklegt að þeir sem hafi fyrst komið í skimun hafi haft ástæðu til að óttast um að þeir væru smitaðir.

Þá sagði hann jafnframt að það kæmi sér skemmtilega á óvart hversu lítið veiran hafi breiðst út, sem gefi möguleika á að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Til að stemma stigu við útbreiðslunni tók í almennt samkomubann gildi í nótt þar sem fleirum en 100 manns er bannað að koma saman á sama tíma, og halda þurfi tveggja metra fjarlægð á milli fólks.

Félagið segir að þrjú jákvæð sýni hafi síðan verið sérstaklega raðgreind, eitt sé af tegundinni S sem sé upprunalega veiran frá Asíu, en það sýni hafi komið úr manneskju frá vesturströnd Bandaríkjanna. Hin tvö séu lítillega stökkbreytt sýni af gerðinni L sem séu algengari í Evrópu. Von er á 100 sýnum til viðbótar úr raðgreiningu á morgun.

Fyrirtækið stefnir á að þúsund niðurstöður til viðbótar verði tilbúnar í kvöld, svo fjöldi greindra sýna nemi þá 2.800, en í heildina hafa alls 14 þúsund manns skráð sig í skimun hjá félaginu til 27. mars næstkomandi. Áfram er svo hægt að skrá sig í skimun ef tímar losna eftir afbókanir.