Skiptum er lokið á þrotabúi Gunnars majones hf. sem stofnað var árið 1960 af Gunnari Jónssyni og konu hans Sigríði Regínu Waage, en þrotabú félagsins sem tekið var til gjaldþrotaskipta 12. júní 2014 heitir GM framleiðsla hf.

Lýstar kröfur í þrotabúið námu rúmlega 191 milljón krónum að því er fram kemur í lögbirtingablaðinu, en félagið seldi allar eigur sínar til félagsins Gunnars ehf. í mars árið 2014. Skráður eigandi þess þá var Kleópatra Kristbjörg Stefánsdóttir, fyrrverandi forstjóri Gunnars Majones, sem keypti félagið af systrunum Helenu og Nancy Gunnarsdætrum.

Önnur systirin var dæmd til að endurgreiða þrotabúin 13,8 milljónir króna greiðslur vegna ofgreiddra launa eftir að henni mátti vera ljóst að fjárhagsstaða fyrirtækisins var erfið. Hafði hún þá hækkað laun sín sem stjórnarformaður félagsins úr 260 þúsund krónum á mánuði í 1.345.000 krónur að því er Morgunblaðið greindi frá á síðasta ári.

Jafnframt þurfti ráðgjafi sem sat í stjórn félagsins að greiða því til baka 880 þúsund króna, að því er Vísir greindi frá, en báðir dómarnir voru kveðnir upp af Héraðsdómi Reykjaness.

Félag Kleópötru keypti allan reksturinn fyrir skuldabréf

Gunnars ehf. hélt framleiðslunni áfram enda fékk félagið með kaupunum vörumerkin, uppskriftirnar, heimasíðuna, markaðsefni, allan búnað auk þess að nýja félagið tók yfir ráðningarsamning starfsmanna félagsins. Fyrirtæki Kleópötru greiddi fyrir herlegheitin með 62,5 milljón króna skuldabréfi með 7,25% ársvöxtum til tíu ára.

Skiptum lauk á búinu 27. október síðastliðinn, en samkvæmt úthlutunargerð greiddust að fullu sértökukröfur, krónur 260 þúsund, tæplega tveggja milljóna búskröfur og 12,5 milljóna forgangskröfur, auk rúmlega 71 milljón króna almennar kröfur, og 29 milljónir upp í eftirstæðar kröfur.

Þá greiddust 9.330 upp í eftirstæða kröfu, sem var víkjandi gagnvart öllum öðrum kröfum sem samþykktar voru við skiptameðferðina, eða 0,1456 hundraðshlutar að því er segir í lögbirtingablaðinu. Samanlagt greiddust því 114.729.754 krónur upp í lýstar kröfur, svo út af standa 76.639.889 krónur.