Tæplega 20 þúsund framlínustarfsmenn Amazon hafa greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum. Það samsvarar um 1,44% af þeim 1,37 milljónum starfsmanna samstæðu Amazon og dótturfélagsins Whole Food. BBC greinir frá.

Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt af starfsmönnum, verkalýðsleiðtogum og kjörnum fulltrúum fyrir að hafa ekki varið starfsmenn nægjanlega fyrir hættunni á smiti. Fyrirtækið hefur haldið dreifingarmiðstöðvum sínum opnum í gegnum faraldurinn til að mæta aukinn eftirspurn eftir heimsendingum. Sala félagsins jókst um 40% frá apríl til júní milli ára og skilaði það methagnaði á fjórðungnum.

Amazon segir smiti hins vegar færri en búist var við. Búast hefði mátt við að 34 þúsund hefðu smitast miðað við fjölda smita í samfélaginu. Félagið hvetur önnur fyrirtæki til að birta einnig fjölda smita á meðal starfsmanna sinna. Þá segir Amazon félagið hafi gripið til margvíslegra aðgerða, þar á meðal innleitt fjarlægðarmörk milli starfsmanna, alls 150 breytingar á ferlum innan vöruhúsa sinna.

Starfsstöðvar séu þrifnar á um 90 mínútna fresti, starfsmenn eru reglulega hitamældir, fjarlægðarmörk og smithólf sett upp auk þess að félagið hefur dreift um 100 milljón andlitsgrímum til starfsmanna til að hindra útbreiðslu veirunnar sem hafi skilað sér.

Ætla að gera 50 þúsund skimanir daglega

Er þetta í fyrsta sinn sem bandarískt stórfyrirtæki upplýsir um niðurstöður slíkra rannsókna hjá starfsmönnum sínum, en Viðskiptablaðið hefur fjallað um viðamiklar skimanir sem fyrirtækið fór af stað með og rannsóknarstöð sem félagið ætlaði að byggja til að sinna þeim. Jafnframt fjölgaði félagið starfsmönnum töluvert í kjölfar aukinnar netverslunar vegna faraldursins.

Í kjölfar fyrrnefndrar gagnrýni sem kom á fyrirtækið vegna mikillar nálægðar og hættu á smiti innan vöruhúsa þess fór það af stað með áætlun um að skima þúsundir starfsmanna á dag í mars og er ætlunin að skimanirnar verði 50 þúsund á dag þegar komið verður fram í nóvember.

„Upplýsingarnar væru mikilvægari ef það væru svipaðar upplýsingar til staðar frá öðrum stórum fyrirtækjum til að bera saman við,“ hefur WSJ uppúr tilkynningu félagsins. „Almennur aðgangur að gögnum gætu gert okkur kleyft að meta árangurinn og deila bestu aðferðunum milli fyrirtækja og iðngreina.“

Með 1,3 milljón starfsmenn

Starfsmenn fyrirtækisins í Bandaríkjunum eru yfir 1,3 milljón manns, og miðað við það að smithlutfallið þar í landi hefur verið um 2.180 sýktir af hverjum 100 þúsund manns, ættu sýktir starfsmenn að vera um 33.952 en voru þess í stað 19.816.

Það þýðir að smithlutfallið er um 1.442 hver 100 þúsund starfsmenn. Félagið hefur ráðið tugi starfsmanna í rannsóknarstöð fyrirtækisins auk annarra sérhæfðra starfsmanna til að einblína á verkefnið.