Hagnaður fyrirtækisins Dohop nam rétt rúmum 5 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 204 milljóna króna tap árið á undan.

Rekstrartekjur Dohop námu 396 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 304 milljónir króna árið á undan. Eigið fé félagsins í árslok var 89,3 milljónir króna samkvæmt efnahagsreikningi, þar af hlutafé 2,2 milljónir króna en það var hækkað um 151,4 milljónir króna á árinu 2017.

Launakostnaður félagsins lækkaði milli ára eða úr 270 milljónum króna 2016 í 223 milljónir króna 2017.

Ársverkum fyrirtækisins fækkaði úr 28 í 21,5 milli ára. Fram kemur í skýrslu stjórnar að lagt sé til að ekki verði greiddur út arður á þessu ári vegna ársins 2017.

Tilgangur félagsins er að þróa og reka internetvef á sviði ferðaþjónustu. Fyrirtækið er að mestu leyti í eigu Vivaldi Íslands ehf., en það fer með 17,44% eignarhlut. Þá á Frosti Sigurjónsson, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður, 12,60% hlut í fyrirtækinu og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á 9,45% hlut.