Fyrir skömmu hlaut SagaNatura 200 milljóna króna styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins sem nefnist SME Instrument. SagaNatura var á meðal þúsunda fyrirtækja sem sótti um þessa styrkveitingu og segir Sjöfn Sigurgísladóttir, framkvæmdastjóri félagsins, það vera frábæra viðurkenningu fyrir fyrirtækið að hljóta styrkinn.

„Dr. Steinþór Sigurðsson, vísindamaður hjá SagaNatura, hefur uppgötvað áður óþekkt efni í íslenskri ætihvönn sem hefur slakandi virkni á þvagblöðru. Við höfum nú sótt um einkaleyfi á notkun þessa efnis fyrir ofvirka blöðru. Styrknum verður varið í að sanna virkni efnisins, hanna nýja vöru með stöðluðu magni af þessu virka efni og framkvæma 200 manna klíníska rannsókn á fólki með ofvirka blöðru. Styrkurinn mun einnig nýtast í að hefja ræktun og kynbætur á hvönn með því markmiði að auka magn þessa virka efnis.  Tilgangur verkefnisins er að hjálpa þeim sem kljást við ofvirka blöðru með náttúrulegri lausn sem er án allra aukaverkanna. Þeim sem kljást við ofvirka blöðru er oftar mál og þurfa að pissa á nóttunni, en talið er að um 10% mannkyns hafi ofvirka blöðru sem svarar til 500 milljóna einstaklinga. Tíðni þessa sjúkdóms eykst með hækkandi aldri."

Sjöfn segir styrkinn virka sem stóra innspýtingu í fyrirtækið og telur að um tuttugu ný störf skapist hjá fyrirtækinu í framhaldinu. Hún segir að þegar búið verði að sanna virkni efnisins muni það opna ýmsar dyr fyrir fyrirtækið erlendis og að stærri fyrirtæki muni sýna vörunni áhuga.

„Við erum að selja SagaPro undir okkar vörumerki og annarra í nokkrum löndum: Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Finnlandi og NýjaSjálandi, og höfum verið í löngum viðræðum við stærri aðila í nokkrum Evrópulöndum. Þessir stóru aðilar eru nú að koma til baka eftir fréttir af styrknum, enda er þetta mikil viðurkenning fyrir SagaPro og okkar rannsóknarvinnu. Þar af leiðandi gætum við mögulega séð aukna sölu fyrr en að við bjuggumst við, enda vorum við ekki að búast við þessum mikla áhuga fyrr en eftir lok klínísku rannsóknarinnar."

Nánar er rætt við Sjöfn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .