Tæplega 200 manns hafa skorað á Írisi Róbertsdóttur að leiða nýtt framboðsafl í Vestmannaeyjum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Íris er grunnskólakennari í Vestmannaeyjum en hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og situr nú í miðstjórn flokksins. Hún hefur áður verið varaþingmaður flokksins og formaður Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum. Auk þess hefur hún gegnt stöðu formanns ÍBV.

Í kvöld hefur verið boðað til stofnfundar nýs bæjarmálafélags í Vestmannaeyjum en markmiðið er að bæta samfélagið að því er kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Að því er Viðskiptablaðið kemst næst eru yfir 150 manns sem undir áskorunina rita yfirlýstir Sjálfstæðismenn og ef Íris lætur tilleiðast má vera nokkuð ljóst að um klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokknum er að ræða.

Í morgun var tilkynnt um framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum en líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um mun Elliði Vignisson taka 5. sætið á listanum. Elliði verður þó áfram bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins.

Töluverðar deilur höfðu átt sér stað í aðdraganda þess að valið var á lista en erfitt reyndist fyrir Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum að koma sér saman um aðferð við val á lista. Upphaflega var talið að farið yrði í prófkjör eftir að flokksmenn höfnuðu uppstillingu. Prófkjör naut þó heldur ekki stuðnings meirihluta í fulltrúaráði félagsins og að endingu var samþykkt að fara í svokallaða röðun.