Davíð Helgason, einn af stofnendum og stjórnarmaður hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies, sat fyrr í dag fyrir svörum við spurningum frá gestum viðburðar sem Startup Reykjavík stóð fyrir. Þar fór Davíð um víðan völl og sagði frá því hvernig að hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað í kjallara í Kaupmannahöfn varð að risastóru fyrirtæki sem hefur verið metið á hundruði milljarða króna.

Davíð lýsti í samtali við Viðskiptablaðið árið 2016, Unity í einföldu máli sem sköpunarvettvangi fyrir tölvuleikjahönnuði, líkt og Microsoft Word er fyrir rithöfunda. Á þeim tíma sem viðtalið var tekið bjuggu ein og hálf milljón aðila til tölvuleiki mánaðarlega með aðstoð Unity. Meðal leikja sem byggja á hugbúnaðinum er Pokémon Go, sem sló heldur betur í gegn þegar hann kom á markað fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Davíð kom inn á það á viðburðinum að upphafsár fyrirtækisins hafi alls ekki verið auðveld. „Ég var oft nálægt því að gefast upp. Fjármagn okkar var af mjög skornum skammti og fyrirtækið skuldaði pening. Árið 2006 var versta ár sem ég hef upplifað, þetta ár var algjör martröð. Við höfðum ráðið inn nokkra aðila í vinnu hjá okkur og vorum með skrifstofu utan um starfsemina. Við vorum búnir að fá inn allt það lánsfjármagn sem við áttum kost á og það gekk því erfiðlega að fá aukið fjarmagn inn í fyrirtækið. Á þessum tíma var ég forstjóri fyrirtækisins og bar því ábyrgð á rekstri þess. Ég vildi ekki angra meðstofnendur mína of mikið, þar sem að þeir voru mjög uppteknir við kóðunarvinnu. Við neyddumst stundum til þess að borga starfsmönnum okkar laun of seint, eða í kringum sjöunda dag mánaðar. Greiðsla leigunnar sem við greiddum fyrir húsnæðið undir starfsemina gat einnig tafist um mánuð. Þetta tímabil var mjög erfitt og ástandið lagðist þungt á mig" segir Davíð.

„Margir hafa spurt mig hvernig okkur hafi tekist að hafa það af í gegnum þessa erfiðleika og ekki gefist upp. Okkur þótti mjög vænt um viðskiptavini okkar og það gaf okkur mikið að þeir gætu skapað með því að nota okkar „verkfæri" til þess. Við vorum með skýra mynd af þeirri vöru sem við vorum að þróa og höfðum trú á henni. Það hjálpaði okkur að komast í gegnum erfiðleikana og við litum svo á að við værum með verkefni í vinnslu sem við værum að byggja upp smátt og smátt" segir Davíð.

Davíð fjallaði um ýmislegt fleira á viðburðinum. Viðburðurinn var í beinni útsendingu á Facebook síðu Startup Reykjavík og hægt er að nálgast upptöku hér .