Á nýafstöðnu ári nam fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum  á Íslandi 160 milljónum Bandaríkjadala, eða um 20,7 milljörðum íslenskra króna, og dróst saman um tæp 28 prósent á milli ára. Fjöldi fjárfestinga var svipaður, eða 25 fjárfestingar samanborið við 27 árið áður, en meira var um smærri fjármagnanir. Þetta kemur fram í skýrslu Northstack um það fjármagn sem sprotafyrirtæki sóttu á árinu 2021. Skýrslan tekur ekki til styrki eða fjármagnanir undir 75 milljónum íslenskra króna.

Öflugt fjármögnunarumhverfi

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi Northstack, segir fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja vera öflugt og telur samdrátt í heildarupphæð fjárfestinga á milli ára eiga sér eðlilegar skýringar, en árið 2020 var það langstærsta í sögunni.

„Við sjáum út úr þessu að annað hvert ár virðist meira um minni fjárfestingar og stærri fjárfestingar fylgja í kjölfarið árið eftir. Það sést að árin 2018 og 2020 innihéldu hlutfallslega fleiri stærri fjárfestingar en árin 2019 og 2021, þar sem fjárfestingar voru hlutfallslega minni," segir Kristinn.

Af þeim 25 fjárfestingum sem áttu sér stað á síðasta ári voru tólf þeirra undir 2,5 milljónum dala og einungis fjórar yfir 10 milljónum dala, samanborið við níu árið 2020. Að sögn Kristins sækja sprotafyrirtæki nýtt fjármagn á u.þ.b. 18 mánaða fresti, þótt bilið geti verið 12-24 mánuðir.

„Ef margir sækja fjármagn á fyrri hluta 2019 er líklegt að margir þeirra þurfi að sækja sér aftur stærri fjármögnun árið 2020. Fyrri fjármögnun er gjarnan minni því það er ólíklegt að fyrirtæki sæki sér 10 milljóna dala fjármögnun ef það hefur ekki sótt 1-2 milljóna dala fjármögnun áður," segir Kristinn. Flæðið í nýsköpunarumhverfinu sé þannig að fólk byrji með litla fjármögnun og ef vel gengur þá fái það meira fjármagn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .

Fjöldi og heildarupphæð fjárfestinga
Fjöldi og heildarupphæð fjárfestinga