Hagnaður Hampiðjunnar á árinu 2018 nam 11,6 milljónum evra eða því sem nemur um 1,5 milljörðum króna. Dróst hagnaður félagsins saman um 13,2 milljónir evra en lækkunin skýrist af söluhagnaði fjárfestingareigna og hlutabréfa upp á 16,1 milljón evra á árinu 2017 auk arðgreiðslu upp á 0,6 milljónir evra. Sé leiðrétt fyrir þessum liðum jókst hagnaður af reglulegri starfsemi um 43% milli ára. Tekjur félagsins námu 152,9 milljónum evra á árinu eða því sem nemur 19,5 milljörðum króna og jukust um 21%. Þá nam EBITDA 20,5 milljónum evra og hækkaði um 24,5% milli ára.

Í lok árs námu heildareignir 213,4 milljónum evra en vaxtaberandi skuldir voru 73,9 milljónir og eiginfjárhlutfall var 51,5%. Félagið greiddi 490 milljónir króna í arð til hluthafa í byrjun apríl. Hjörtur Erlendsson er forstjóri Hampiðjunnar.