Gilead Sciences mun rukka ríkisstjórnir víðs vegar um heim 2.340 dollara, eða um 324 þúsund íslenskra króna, fyrir lyfjakúr af remdesivir, lyf sem styttir batatíma Covid-19 sjúklinga. Financial Times segir frá .

Bandaríska líftæknifyrirtækið tjáði heilbrigðisráðuneytum þróaðra landa að það myndi rukka 390 dollara fastagjald, um 54 þúsund krónur, fyrir hverja lyfjaflösku af lyfinu. Fimm daga meðferð krefst sex lyfjaflaska.

Remdsesivir styttir batatíma Covid sjúklinga um fjóra daga að meðaltali samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Bandarísku smitsjúkdóma- og ofnæmisstofnunarinnar, NIAID. Fyrirtækið heldur því fram að styttri batatíminn geti sparað spítala um 12 þúsund dollara eða um 1,7 milljónir króna á hvern sjúkling.

Gilead sagði að verðlagning lyfsins væri „töluvert lægri“ en væntur ávinningur af því til þess að veita „breiðan og réttlátan aðgang á áríðandi tímum“. Ákvörðunin um að rukka fastagjald var tekin til að koma í veg fyrir viðræður um verð við hverja þjóð.

Bandarísk tryggingafélög verða rukkuð hærra verð eða um 520 dollara á hverja flösku og því verður kostnaðurinn um 3.120 dollarar fyrir hvern sjúkling hjá einkareknum vátryggjendum.

Gengi hlutabréfa Gilead, sem eru skráð í New York Kauphöllinni, hefur hækkað um 14,3% á árinu og er markaðsvirði félagsins um 93,5 milljarðar dollara miðað við núverandi gengi.