Öll félögin sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallarinnar hafa nú birt uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Samanlagður hagnaður þeirra 20 félaga sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar nam 24,2 milljörðum á fjórðungnum og jókst um 2,8 milljarða milli ára eða 13%. Batnaði afkoma 11 félaga milli ára á meðan hún versnaði hjá 9 félögum.

Í krónum talið jókst hagnaður Brims um rúmlega 1,4 milljarða króna á milli ára auk þess sem hagnaður Marel jókst um 1,3 milljarða en bæði félögin gera upp í evrum. Afkoma VÍS dróst hins vegar mest saman eða um 1,3 milljarða króna auk þess sem afkoma Reita versnaði um 576 milljónir.

Þegar horft er á fyrstu níu mánuði ársins hefur samanlagður hagnaður félaganna aukist um rúmlega 8,3 milljarða króna en hann nam 45,3 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Í krónum talið hefur hagnaður Marel aukist um 3,2 milljarða en hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam rúmlega 13,7 milljörðum króna. Þá jókst hagnaður Sjóvá um 2,8 milljarða milli ára en hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam rúmlega 3 milljörðum króna.

Afkoma Icelandair hefur hins vegar versnað mest það sem af er ári en hún versnaði um 3,6 milljarða í krónum talið en notast er við meðalgengi tímabils til að umreikna afkomu yfir í krónur þegar um er að ræða félag sem gerir upp í erlendri mynt. Þá hefur afkoma Arion banka versnað um tæplega 2,3 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins.

Marel er það félag sem mest hefur hækkað í verði það sem af er ári eða um 66% auk þess sem Síminn hefur hækkað um tæplega 45%. Mest lækkun hefur hins vegar verið á bréfum Eimskips en bréf félagsins hafa lækkað um 29,4% það sem af er ári. Þá hafa bréf Sýnar lækkað um 23,2% á árinu en hafa þó tekið við sér á síðustu misserum.