Þýski bankinn Bundesbank segir að aðgerðir Seðlabanka Evrópu til að örva hagkerfi evrusvæðisins hafi sparað þýskum skattgreiðendum yfir 240 milljarða evra. Þetta kemur fram í skýrslu sem bankinn sendi frá sér í dag. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Í skýrslunni kemur fram að peningastefna evrópska seðlabankans hafi orðið til þess að meðalvaxtakostnaður ríkis og sveitarfélaga Þýskalands hafi lækkað úr 4% árið 2007 niður í 2% árið 2016. Þar með hafi 240 milljarðar evra sparast í vaxtagreiðslur á síðastliðnum 10 árum. Eru niðurstöðurnar taldar ganga þvert á þá skoðun að peningastefnan hafi rænt sparifjáreigendur á evrusvæðinu eignum sínum.

Í kjölfar fjármálakrísunnar árið 2008 lækkaði seðlabankinn vexti sína verulega. Stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 0% og innlánsvextir eru neikvæðir um 0,4%. Samhliða vaxtalækkuninni hefur seðlabankinn keypt skuldabréf fyrir um 2.000 milljarða evra.

Útgáfa skýrslunnar er talinn renna stoðum undir orðróm sem uppi hefur verið um að Jens Weidmann, forseti Bundesbank, hafi í hyggju að taka við stöðu forseta Seðlabanka Evrópu þegar skipunartími Mario Draghi, núverandi forseta, rennur úr árið 2019. Er skýrslan talinn merki um að Wiedmann sem hefur verið einn harðasti gagnrýnandi peningastefnu evrópska seðlabankans sé til tilbúinn að leita sátta til þess að auka möguleika sýna á að fá stöðu forseta bankans.