Á aðalfundi Landsbankans í dag var samþykkt að bankinn greiði alls 24,8 milljarða króna í arð á árinu 2017. Annars vegar er um að ræða 13 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2016 sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 11,8 milljarðar króna.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá bankanum munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2017 því alls nema um 107 milljörðum króna.

Á fundinum var einnig greint frá nýrri arðgreiðslustefnu sem bankaráð samþykkti í mars síðastliðinn. Í stefnunni er gert ráð fyrir að reglulegar arðgreiðslur til hluthafa verði að jafnaði 60-80% af hagnaði fyrra árs.

Í samræmi við fjármögnunarstefnu bankans er einnig stefnt að sérstökum arðgreiðslum til þess að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans. Við ákvörðun um arðgreiðslur verður því tryggt að bankinn uppfylli lögbundnar kröfur á hverjum tíma og viðhaldi sterkri fjárhagsstöðu.