Samstæða 1912 ehf., eigandi Nathan og Olsen ehf., Ekrunnar ehf. og meirihlutaeigandi Emmessís ehf., hagnaðist um 278,4 milljónir króna á síðasta rekstrarári og jókst hagnaðurinn um rúmar 38 milljónir króna. Sala samstæðunnar jókst um 1,3 milljarða króna, nam tæplega 9,4 milljörðum, en kostnaðarverð seldra vara hækkaði á móti um milljarð og nam 6,9 milljörðum.

Á árinu eignaðist félagið meirihluta í Emmessís og fjölgaði stöðugildum samstæðunnar um 39 við það. Rekstrargjöld voru 2,1 milljarður og jukust um tæpar 300 milljónir. Eigið fé jókst um 119 milljónir og var tæpar 635 milljónir í árslok 2019.

Skuldir voru tæpir 2,5 milljarðar og skiptast nokkuð jafnt milli lang- og skammtímaskulda. Þar af er 900 milljóna króna lán á gjalddaga árið 2023. Á síðasta ári greiddi félagið 170 milljónir í arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2018 en ákvörðunar um arðgreiðslu vegna ársins 2019 er ekki getið í ársreikningi. Ari Fenger er forstjóri 1912