Í ágústmánuði hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,27% og endaði hún mánuðinn í 2.107 stigum, en heildarviðskiptin í mánuðinum námu 28,8 milljörðum króna, sem samsvarar ríflega 1,4 milljarði króna á hverjum viðskiptadegi.

Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Kauphallar Nasdaq á Íslandi , en viðskiptin í mánuðinum voru fyrir 44% hærri upphæð en í júlímánuði, þegar þau námu rétt um milljarði króna.

Hins vegar voru viðskiptin 34% minni en í sama mánuði fyrir ári þegar þau námu tæplega 2,2 milljónum króna á hverjum viðskiptadegi. Arion banki var með mestu hlutdeildina í viðskiptum mánaðarins, eða 21,7%, Fossar markaðir voru næstir með 19,2% og Íslandsbanki þar á eftir með 18,7%.

Flest viðskipti með bréf Icelandair en ekki mest

Í ágústmánuði voru mestu viðskiptin með bréf Arion banka, eða fyrir fjóra milljarða króna, næst mest með bréf Símans fyrir 3,1 milljarða, en næst á eftir komu Marel með 2,9 milljarða, Festi með 2,7 milljarða og VÍS fyrir 2,4 milljarða.

Hins vegar voru flest viðskiptin með bréf Icelandair, eða 466 af 2.668 heildarviðskiptum í mánuðinum, en í næstu sætum þar á eftir röðuðu sér þau sem voru í mestu viðskiptunum, það er Arion með 290, Marel með 180, Síminn með 175 og loks Reginn með 168 viðskipti.

Að jafnaði voru því 133 viðskipti á dag í ágústmánuði sem er 32% hækkun frá fyrri mánuði þegar þau voru í heildina 2.021. Fjölgunin mili ára var hins vegar 5%, en í ágúst 2019 voru þau 2.535.