Grikkland hóf í dag fyrstu útgáfu ríkisskuldabréfa frá árinu 2014. Samtals söfnuðust þrír milljarðar evra í útboðinu. Skuldabréfin eru til fimm ára og er ávöxtunarkrafa bréfanna 4,625% samkvæmt frétt Financial Times .

Helmingur af bréfunum sem seldust í útboðinu voru keypt af fjárfestum sem samþykktu að skipta skuldabréfum sem þeir áttu fyrir og eru á gjalddaga árið 2019 út fyrir bréfin sem eru á gjalddaga árið 2022.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær vonast ríkisstjórn Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, til þess að skuldabréfaútgáfan muni greiða götuna í áttina að því að enda núverandi björgunaraðgerðir gagnvart landinu sem enda árið 2018.

Grikkir eiga sem fyrr í miklum skuldavanda og nema ríkisskuldir 180% af vergri landsframleiðslu landsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur þrýst á lánardrottna Grikklands að veita landinu frekari skuldaafléttingu til að stöðugt ástand náist í fjármálum landsins.