Póstdreifing sem er í eigu Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og Torgs, sem gefur út Fréttablaðið, hefur sagt upp öllum 304 blaðberum sínum. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu .

Kristín Björk Einarsdóttir framkvæmdastjóri Póstdreifingar segir í samtali við RÚV að það sé virkilega erfitt að hafa þurft að grípa til svo afdrifaríkra aðgerða, en ekki hafi verið um neitt annað að ræða. Um endurskipulagningu hafi verið að ræða og flestir verði ráðnir aftur í breyttu vinnufyrirkomulagi.

Uppsagnirnar taka gildi frá og með 1. ágúst. Hafa á samband við þá starfsmenn, sem munu fá endurráðningu, innan mánaðar.

Kristín segir í samtali við rúv að ekki sé búist við því að það verði nein röskun á starfseminni.