Icelandair áætlar að íslenska ríkið muni greiða allt að 24 milljónir dollara, andvirði um 3,2 milljarða íslenskra króna, vegna þátttöku þess í greiðslu launakostnaðar starfsfólks á uppsagnarfresti. Þetta er meðal þess sem lesa má úr skýringum við uppgjör annars ársfjórðungs hjá félaginu.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að téðum lögum kom fram að ríkið áætlaði kostnað vegna aðgerðarinnar í heild um 27 milljarða króna. Icelandair mun því fá um einn níunda af því sem áætlað var í aðgerðina.

Sem kunnugt er hefur starfsemi félagsins verið í mýflugumynd frá því að Covid-19 veirufaraldurinn hóf ferðalag sitt um gnípu. Á öðrum ársfjórðungi tapaði félagið 12,3 milljörðum króna en rekstrartap var tæpum tveimur milljörðum hærra. Í dag var einnig sagt frá því að félagar í Flugfreyjufélagi Íslands hefðu samþykkt nýjan kjarasamning við flugfélagið og því styttist í að fyrirhugað hlutafjárútboð geti farið fram.

Auk þess að taka þátt í greiðslu launa á uppsagnarfresti hefur ríkið greitt hluta launa starfsfólks Icelandair sem hefur verið í minnkuðu starfshlutfalli. Í uppgjörinu kemur ekki fram hve há sú upphæð er í heildina. Þá hefur félagið fengið greitt frá ríkinu fyrir að halda lágmarksflugsamgöngum uppi.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að félagið hafi brotið skilmála lánasamninga sem það hefur gert. Heildarupphæð þeirra er 153,2 milljónir dollara, ríflega 20 milljarðar króna á gengi dagsins, en sökum þess er sú skuld færð meðal skammtímaskulda í uppgjörinu. Heildarskuldir félagsins nema 263 milljónum dollara en skammtímaskuldir nema 24,5 milljónum dollara.

Í skýringum við uppgjörið er þess getið að félagið hafi fengið frest á greiðslu þeirra lána sem hefðu verið gjaldfelld undir venjulegum kringumstæðum. Samningaviðræður við lánadrottna félagsins standa yfir en stefnt er að því að ljúka þeim áður en nýtt hlutafé verður boðið til sölu.

Sökum faraldursins var mörgum flugferðum aflýst. Viðskiptavinum bauðst ýmist að fá endurgreiðslu ferðarinnar eða að fá inneignarnótu hjá félaginu. Í uppgjörinu er gerð grein fyrir því að fleiri hafi nýtt sér að fá inneign hjá félaginu en upphaflega var gert ráð fyrir. Seld gjafabréf félagsins standa nú í 67,2 milljónum dollara, um níu milljörðum króna, en þau gilda í þrjú ár. Seld flugsæti og gjafabréf samanlagt nema 142,5 milljónum dollara.

Þá kemur fram í uppgjörinu að félagið hafi selt eina af 737Max vélum sínum og leigt hana strax til sín á nýjan leik. Handbært fé félagsins var 153,6 milljónir dollara í lok júní.