Atvinnuþátttaka mældist 84,4%, hlutfall starfandi mældist 81,5% og atvinnuleysi var 3,4% á öðrum ársfjórðungi ársins 2017. Frá öðrum ársfjórðungi 2016 fjölgaði starfandi fólki um 3.500 en hlutfall af mannfjölda lækkaði um 0,4 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 200 manns og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli lækkaði um 0,2 prósentustig. Atvinnulausar konur voru 3.300 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 3,5%. Atvinnulausir karlar voru 3.700 eða 3,4%. Atvinnuleysi var 3,9% á höfuðborgarsvæðinu og 2,6% utan þess. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Á öðrum ársfjórðungi 2017 voru að jafnaði 202.500 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 195.600 starfandi og 7.000 án vinnu og í atvinnuleit.

Langtímaatvinnuleysi 5,5%

Af þeim sem voru atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2017 voru að jafnaði 4.200 manns búnir að vera atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 60% atvinnulausra. Á öðrum ársfjórðungi 2016 höfðu um 3.100 einstaklingar verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur sem þá voru 42,6% atvinnulausra.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á árunum 2009 til 2012 jókst langtímaatvinnuleysi til muna hér á landi en er nú aftur komið í svipað horf og var fyrir þann tíma. Á öðrum ársfjórðungi 2017 höfðu um 400 manns verið langtímaatvinnulausir eða 5,5% atvinnulausra samanborið við 800 manns á öðrum ársfjórðungi 2016, sem þá voru 11% atvinnulausra. Ef hlutfallið er tekið af öllum á vinnumarkaði þá voru 0,2% langtímaatvinnulausir samanborið við 0,4% árið áður.