Tap af reglulegri starfsemi Kaupfélags Borgfirðinga á árinu 2020 nam 34,4 milljónum króna. Þar af var 8,5 milljóna króna tapa af hlutdeildarfélögum. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

Félagið rekur tvær verslunareiningar, annars vegar búrekstrardeild sem sérhæfir sig í þjónustu við bændur og hins vegar matsölustaðinn Food Station. Einnig er Kaupfélagið hluthafi í Samkaupum og er með fasteignir í útileigu á félagssvæðinu.

Rekstrartekjur Kaupfélagsins jukust um 18,5% milli ára eða úr 418 milljónum króna árið 2019 í 496 milljónir á síðasta ári. Þar af nam húsaleiga 47 milljónum króna. Rekstrargjöld námu 515 milljónum króna, sem er hækkun um ríflega 132 milljónir króna eða um 34,6%. Rekstrartap félagsins var því 19 milljónir á síðasta rekstrarári.

Í skýrslu stjórnenda kemur fram að afkoma búrekstrardeildar batnaði aðeins milli ára en mikið tap var á rekstri Food Station, „aðallega í tengslum við hrun í fjölda ferðamanna vegna Covid“. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir rúmum mánuði að Kaupfélagið hefur auglýst húsnæði Food Station til sölu.

Fjöldi ársverka hjá Kaupfélaginu hækkaði úr 9 árið 2019 í 16,5 á síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu 122,4 milljónum króna árið 2020, samanborið við 90,5 milljónir árið áður. Laun og þóknanir til stjórnenda voru 11,8 milljónir króna á síðasta ári.

Seldu í Samkaupum fyrir 187 milljónir

Í byrjun mars 2021 seldi félagið 2% af hlut sínum í Samkaupum til Birtu lífeyrissjóðs en Kaupfélagið átti 12,7% hlut í Samkaupum fyrir söluna. Söluandvirðið var 187,2 milljónir króna „og kemur það sér vel fyrir reksturinn eftir erfitt Covid ár“.  Miðað við sölugengið í þessum viðskiptum þá er markaðsvirði eignarhlutar félagsins um 1,2 milljarðar króna en bókfært virði er rúmlega 400 milljónir í árslok 2020.

Sjá einnig: Vilja Samkaup í Kauphöllina

Eignir Kaupfélagsins námu 1,2 milljörðum króna í árslok 2020 og jukust um 24,5 milljónir milli ára. Skuldir jukust um 58,7 milljónir og námu 852 milljónum króna í lok árs. Eigið fé nam 350 milljónum króna, sem er lækkun um 34,3 milljónir. Eiginfjárhlutfallið lækkaði því úr 32,6% í 29,1% milli ára.

Félagssvæði Kaupfélags Borgfirðinga nær yfir Vesturland, frá Hvalfjarðarbotni í suðri að Kjálkafirði í vestri. Félagsmenn eru 1.841 í 16 félagsdeildum.