Kaffifyrirtækið JDE Peet var skráð í hollensku kauphöllina Euronext í dag. Félagið safnaði rúmlega 2,25 milljörðum evra, sem jafngildir um 340 milljarða íslenskra króna, í einu stærsta frumútboði ársins. Financial Times segir frá.

Virði JDE Peet nemur um 17 milljarða evra miðað við hlutabréfaverð félagsins í morgun. Samsteypan rekur kaffivörumerkin Douwe Egberts, Kenco og Peet‘s Cofee.

Félagið seldi um 61,7 milljónir hlutabréfa á genginu 31,5 evrur í morgun. Félagið mun nýta um 700 milljónir evra af fjármagninu sem safnaðist til þess að lækka skuldahlutfall þess og styrkja efnahagsreikninginn.

Oliver Goudet, Framkvæmdastjóri JAB Holdings sem er móðurfélag JDE Peet, hefur eytt stórum hluta af síðasta áratugi í fjöldann allan af skuldsettum yfirtökum til þess að byggja upp JDE Peet sem á að fara í samkeppni við risa eins og Nestlée.

Eignarhaldsfélagið JAB Holdings, sem er í meirihluta eigu þýsku Reimann fjölskyldunnar, mun áfram eiga um 38% hlut í kaffifyrirtækinu eftir frumútboðið. Bandaríska matvælafyrirtækið Mondolez International verður næst stærsti eigandinn en það seldi hluti um 1,55 milljarða evra hlut í JDE Peet í morgun.