Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir að 35 félög hafi sameinast Marel beint eða óbeint. Árni Oddur og Marel fengu viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar í gær.

Árni Oddur segir að yfirtökurnar hafi ekki allar gengið snurðulaust fyrir sig en þær séu alltaf að ganga betur og betur. Þegar Marel keypti danska fyrirtækið Carnitech tvöfaldaðist velta og umfang Marel. Þetta var árið 1997 og var það á þeim tíma stærsta yfirtaka íslensks fyrirtækis á erlendri grundu. Það er því gríðarleg reynsla sem býr innan Marel á yfirtökum og samrunum.

„Á árunum 2006 til 2008 vorum við töluvert óþroskaðra félag en í dag, svo ég tali nú ekki um árið 1997 þegar Marel keypti Carnitech,“ segir Árni Oddur. „Okkar mannauður er stilltur inn á að læra og það hefur skilað sér. Þegar við förum í yfirtöku þá gefum við okkur langan tíma. Þegar loks gengið er frá samningi þá hafa viðræður oft staðið í um þrjú ár og stundum lengur. Ástæðan fyrir þessu er að þegar við tökum fyrirtæki yfir þá stefnum við að fullri samþættingu og þegar það er lokamarkmiðið þá þarf að skoða alla þætti mjög vandlega. Við verðum að hafa í huga að mörg þessara félag hafa verið í eigu sömu fjölskyldna í tvær til þrjár kynslóðir og við verðum að nálgast verkefnin af virðingu. Enda er það svo að sjaldan lærir maður meira inn á markaðinn en í samtölum við allt þetta reynslumikla fólk sem hefur áratuga reynslu í þjónustu við matvælaiðnað. Í byrjun á samþættingarferli leggjumst við á ný yfir kaupin, það er ósjaldan sem kemur í ljós að góðu rekstrareiningarnar eru betri en fyrri eigendur höfðu gert ráð fyrir og þær síðri eru enn verra staddar. Endurskipulagning á vöruframboði, samstilling vinnuafls og kerfa og aukin sala í gegnum sölu og þjónustunet Marel skilar svo auknum ávinningi ef rétt er gert.“

Að sögn Árna Odds hefur Marel farið í tiltölulega fáar yfirtökur í samanburði við suma af stóru keppinautunum.

„Þó að yfirtökurnar hafi verið færri þá hafa þær verið hlutfallslega mjög stórar, sérstaklega þegar haft er í huga að oft er sagt skynsamlegt að miða við 30 til 40% aukningu á veltu við yfirtöku. Yfirtakan á Carnitech 1997 tvöfaldaði veltu Marel, sem og yfirtakan á Scanvaegt 2006 og yfirtakan á Stork 2008. Þegar við gengum frá yfirtökunni á MPS árið 2015 þá var það fyrirtæki um það bil jafnstórt og Stork var þegar við keyptum það.“

Í fyrra gekk Marel frá kaupum á brasilíska fyrirtækinu Sulmaq, sem var í raun fyrsta yfirtakan með það að augnamiði að styrkja markaðssókn Marel í Suður-Ameríku en Suður-Ameríka hefur á að skipa miklum landbúnaðarauðlindum og einnig er það heimamarkaður fyrir 650 milljónir neytenda. Fyrirtækið framleiðir búnað fyrir kjötvinnslu og veltir um 25 milljónum evra. Yfirtakan var einnig gerð með það að markmiði að auka aðgang félagsins að vel menntuðu starfsfólki til að styðja frekar við vöxt félagsins á heimsvísu. Síðasta sumar var gengið frá kaupum á þýska fyrirtækinu Maja, sem sömuleiðis framleiðir búnað fyrir kjötvinnslu og féll vel að vöruframboði Marel. Árlegar tekjur Maja nema um 30 milljónum evra. Þessar yfirtökur eru því litlar í samanburði við þær sem áður hafa verið nefndar.

Árni Oddur segir að Marel sé alltaf að skoða önnur fyrirtæki með yfirtökur í huga.

Ítarleg viðtal við Árna Odd Þórðarson er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.