365 miðlar ehf., félag Ingibjargar Pálmadóttur, hefur aukið enn frekar við sig í Skeljungi hf. auk þess að eiga tvo framvirka samninga um kaup á bréfum í félaginu. Að viðskiptunum loknum munu 365 miðlar eiga rétt rúmlega tíu prósent hlut í Skeljungi og verða stærsti einstaki hluthafi þess.

Sagt var frá því 11. apríl að 365 miðlar hefði selt í Högum og keypt rúmlega þrjú prósent hlut í Skeljungi. Þá gerði það framvirka samninga um kaup á 4,64 prósent hlut til viðbótar. Samanlagt verðmæti viðskiptanna nam um 1,3 milljarði króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar nú kemur fram að félagið eigi 4,32 prósent í Skeljungi nú þegar auk þess að eiga tvo framvirka samninga. Gildistími annars þeirra er til mánaðarloka en ef hann er nýttur mun hlutur 365 aukast um 4,65 prósentustig. Þá er annars framvirks samnings getið er varðar rúmlega eins prósents hlut.

Samanlagt mun 365 miðlar því eiga rúmlega 215 milljón hluti í Skeljungi eða 10,01% atkvæða. Heildarvirði hlutarins, miðað við gengi í dag, er um 1,7 milljarðar. Við lokun markaða fyrir páska var Gildi – lífeyrissjóður stærsti einstaki eigandi í Skeljungi með 9,2 prósent og þá átti Kvika 7,97 prósent.

365 miðlar eru eftir viðskiptin sjötti stærsti hluthafi Skeljungs og verða stærsti eigandinn verði hinir framvirku samningar nýttir.