Velta Ferðaskrifstofu Íslands (FÍ), sem á og rekur Úrval Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir, nam 992 milljónum króna á síðasta ári. Tekjur félagsins jukust um 60% frá fyrra ári en voru þó 70% minni en árið 2019.

FÍ skilaði 86 milljóna tapi árið 2021 og tapaði samtals 387 milljónum síðustu þrjú árin. Eignir félagsins námu rúmum milljarði í árslok 2020 og eigið fé var 237 milljónir.

FÍ undirritaði samning um kaup á Heimsferðum í desember 2020. Samkeppniseftirlitið (SKE) mun birta ákvörðun í samrunamálinu fyrir lok næsta mánudags. Andri Már Ingólfsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Aventura, kallaði eftir því fyrr í mánuðinum að SKE kæmi í veg fyrir kaupin þar sem sameiginlegt félag myndi hafa yfirburðastöðu á markaðnum. Hann hélt því einnig fram að þegar væri búið að samþætta rekstur FÍ og Heimsferða.

Þórunn Reynisdóttir er framkvæmdastjóri FÍ en Pálmi Haraldsson á félagið.