Arion banki hagnaðist um 3.966 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Það er umtalsvert betri afkoma en á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Það sem af er ári hefur bankinn hagnast um 6,7 milljarða króna en arðsemi eigin fjár það sem af er ári er 4,7%. Sé litið á þriðja ársfjórðung var arðsemi eigin fjár 8,3%. Afkoma starfsemi sem flokkuð er sem áframhaldandi var síðan 4.961 milljónir króna á fjórðungnum og það sem af er ári nemur hún 8.637 milljónum króna.

„Heildareignir námu 1.236 milljörðum króna í lok september 2020, samanborið við 1.082 milljarða króna í árslok 2019. Lausafé bankans jókst þar sem ekki varð af fyrirhugaðri 10 milljarða króna arðgreiðslu og vegna útgáfu skuldabréfa undir viðbótar eiginfjárþætti 1 í febrúar og aukningar innlána. Lán til viðskiptavina hækkuðu lítillega frá áramótum, aðallega húsnæðislán. Innlán jukust um 22% frá áramótum. Heildar eigið fé í lok september nam 192 milljörðum króna, samanborið við 190 milljarða króna í árslok 2019,“ segir í tilkynningu.

Það sem af er ári hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað umtalsvert. Á þriðja fjórðungi nú var hann 5,2 milljarðar króna en 6,9 milljarðar króna á sama tímapunkti í fyrra. Munar þar mestu um niðurskurð í launum og launatengdum gjöldum en sá kostnaðarliður dróst saman um 1,6 milljarða króna á fjórðungnum samanborið við sama tíma í fyrra.

„„Það er ánægjulegt að kjarnastarfsemi bankans gekk vel á þriðja ársfjórðungi og afkoma bankans var góð. Tekjur hækkuðu um rúmlega 6% og kostnaður var tæpum 11% lægri borið saman við síðasta ár sem er í takt við þær áherslur sem hafa verið í starfseminni undanfarið ár og verða áfram. Mikilvægur þáttur í okkar stefnu er að bjóða viðskiptavinum fjölbreytta fjármálaþjónustu.

Þetta felur í sér að starfsemi samstæðunnar og tekjumyndun hvílir á mörgum stoðum sem kemur sér vel nú þegar miklar áskoranir eru í umhverfinu. Eftirspurn eftir íbúðalánum var óvenju mikil á ársfjórðungnum sem ásamt öðru leiddi til þess að lánasafn bankans hefur vaxið. Lausafjár- og eiginfjárstaða bankans heldur áfram að styrkjast og er sterkari en nokkru sinni. Bankinn er í raun í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt er að ávaxta í takt við markmið bankans,“ er haft eftir bankastjóranum Benedikt Gíslasyni í tilkynninngunni.