Nýtt markaðstorg sem sett var í loftið síðustu helgi og gengur undir nafninu Yess fékk alls um fjögur þúsund heimsóknir fyrstu þrjá dagana, og afgreiðir nú ásamt vörustýringarkerfinu SalesCloud, sem rekið er af sama aðila, um 250 þúsund pantanir á mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á vef Yess má panta mat og afþreyingu frá 100 stöðum að því er þar kemur fram. Má því leiða að því líkum að torgið veiti hvað sambærilegasta þjónustu við og muni því helst keppa við vef Aha.

Pöntunarþjónustunni til viðbótar semur Yess um afslátt við þau fyrirtæki sem skrá sig á torgið, og er því einnig um „risastórt vildarkerfi“ að ræða, sem mætti einna helst líkja við Einkaklúbbinn svokallaða eða aðra afsláttarklúbba.

Vefurinn og SalesCloud eru rekin af fyrirtækinu Proton ehf., en í tilkynningunni er haft eftir framkvæmdastjóra þess, Helga Andra Jónssyni, að af fjölda pantana sem þegar fara í gegnum kerfið að dæma sé greinilegt að mikil eftirspurn sé eftir lausn sem þessari. Rekstraraðilar muni njóta góðs af þjónustunni vegna þeirrar viðskiptavildar sem SalesCloud hafi nú þegar.