Seðlabanki Íslands hefur veitt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestingar í erlendum gjaldeyri.

Samanlagt nemur heimildin a.m.k. 40 milljörðum króna en hún gildir til loka september. Frá miðju síðasta ári til loka júní í ár hefur lífeyrissjóðunum verið veitt heimild til erlendrar fjárfestingar alls að fjárhæð 40 milljarða króna.

Í tilkynningu frá bankanum segir að gjaldeyrisinnstreymi það sem af er þessu ári, ásamt minni óvissu um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af aflandskrónaútboði og nauðasamningum slitabúa, hafi skapað svigrúm til frekari fjárfestingar í erlendum gjaldeyri.