Íslandsbanki hagnaðist um 8,5 milljarða króna á árinu 2019 og dróst hagnaður bankans saman um 2,1 milljarð milli ára. Arðsemi eiginfjár var 4,8% á árinu og dróst saman um 1,3 prósentustig milli ára samkvæmt uppgjöri bankans sem birt var nú fyrir skömmu.

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 10,5 milljörðum og dróst saman um 1,5 milljarða milli ára en arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6% og lækkaði um 1,4 prósentustig á milli ára.

Hreinar vaxtatekjur námu 33,7 milljörðum króna á árinu og jukust um 5,4% milli ára en vaxtamunur var 2,8% og lækkaði um 0,1 prósentustig á milli ára. Hreinar þóknanatekjur námu 13,4 milljörðum og jukust um 1,2 milljarða eða 9,3% milli ára.

Rekstrarkostnaður nam 32,6 milljörðum og jókst um 4 milljónir milli ára. Þar af nam launakostnaður 16,3 milljörðum og jókst um tæplega 800 milljónir. Kostnaðarhlutfall samstæðu bankans var 62,4% og lækkaði um 3,9 prósentustig á milli ára en kostnaðarhlutfall móðurfélagsins var 57,1% og lækkaði um 3,3 prósentustig á milli ára.

Eignir bankans í árslok námu 1.199,5 milljörðum króna og jukust um 69 milljarða milli ára. Útlán til viðskiptavina námu 900 milljörðum í lok ársins og jukust um 6,3% milli ára.

Stjórn bankans leggur til að arðgreiðsla vegna ársins 2019 muni nema 4,2 milljörðum króna en Íslandsbanki er að fullu í eigu íslenska ríkisins.

Í tilkynningu vegna uppjgörsins er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka:

„Á árinu 2019 endurmátum við stefnu Íslandsbanka og skilgreindum nýtt hlutverk fyrir bankann sem „hreyfiafl til góðra verka“. Við höfum samþykkt framsýna sjálfbærnistefnu sem felur í sér að samþætta þau sjónarmið arðsemismarkmiði bankans.

Afkoma Íslandsbanka á árinu 2019 var ásættanleg og sér í lagi þegar horft er til þess að mikið hægði á hagvexti á árinu 2019. Bankinn skilaði hagnaði upp á 8,5 ma. kr. sem samsvarar 4,8% arðsemi eiginfjár sem er undir langtímaarðsemismarkmiði. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6%. Tekjur bankans jukust um 7,8% á árinu og kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 62,4% og 57,1% fyrir móðurfélagið. Líkt og á árinu 2018 hafði rekstur eins dótturfélags neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar. Ný stefna Íslandsbanka og skilvirkari rekstur munu hjálpa okkur að ná þeim arðsemismarkmiðum sem við höfum sett okkur.

Vöxtur inn- og útlána á árinu var kröftugur eða 6,8% og 6,3%. Aðstæður á fjármagnsmörkuðum, hér heima sem erlendis, voru bankanum hagfelldar á árinu og var fjármögnun bankans áfram farsæl og fjölbreytt. Lausa- og eiginfjárhlutföll bankans héldust áfram sterk og voru vel yfir innri viðmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Af þessu leiðir að Íslandsbanki mun, eftir sem áður, vera vel í stakk búinn til að veita efnahagslífinu það súrefni sem þarf til viðgangs og vaxtar.

Við vorum stærst á markaðnum í miðlun verðbréfa, eignir í stýringu jukust verulega á árinu sem og eignir í vörslu. Auk þess áttu Íslandssjóðir mjög gott ár og voru sjóðir félagsins í fyrsta sæti í ávöxtun á landsvísu í þremur flokkum af fjórum.

Við héldum áfram að fjárfesta í stafrænum lausnum á árinu 2019 og breyttum skipulagi á upplýsingatækni úr því að vera verkefnadrifið í vörumiðað skipulag. Með þessu tengjum við viðskiptasviðin betur við stafrænu vöruþróunina okkar sem verður sífellt mikilvægari fyrir reksturinn. Við kynntum til leiks fjölmargar lausnir þar á meðal nýtt app Íslandsbanka, sjálfvirkt greiðslumat og húsnæðislánaumsókn þar sem sótt er um á nokkrum mínútum.

Sem hluti af stefnumótuninni ákvað samstilltur hópur starfsmanna að styðja sérstaklega við fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og aðgerðir í loftslagsmálum. Einnig var samþykkt á árinu að innleiða alþjóðleg viðmið um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti inn í rekstur bankans. Með þessum stuðningi viljum við vera hreyfiafl til góðra verka.

Framundan eru spennandi en krefjandi tímar og við hlökkum til að vinna áfram í átt að nýju stefnunni í samvinnu við viðskiptavini og samstarfsaðila okkar.“