44 milljarða króna afgangur er á fjárlögum næsta árs og er afkoman 4 milljörðum betri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Frumtekjur námu 822 milljörðum króna og þar á ofan koma vaxtartekjur sem nema 12 milljarða króna. Frumgjöld námu hins vegar 717 milljarðar króna og þar af voru vaxtagjöld 73 milljarðar króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frumvarpi fjárlaga fyrir árið 2018, sem að Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á fundi í morgun. Talsverður afgangur er á frumjöfnuði eða um 104 milljarðar króna.

Helstu áherslur í fjárlögum þessa árs eru meðal annars geðvandi og sjúkrahúsþjónusta, en í dreifiriti þar sem að fjárlögin eru kynnt í stuttu máli segir að ungt fólk með geðvanda fái betri stuðning og að þjónusta innan sjúkrahúsa og heilsugæslu verði efld, og þar á meðal fjarheilbrigðisþjónusta. Einnig verður lögð áhersla á nýjan Landspítala og nýtt sjúkrahótel.

„Hugað er að geðheilbrigðismálum víða í kerfinu. Heilsugæslan um land allt verður styrkt áfram sem fyrsti viðkomustaður, t.d. með fjölgun sálfræðinga. Barna- og unglingageðdeild Landspítala verður styrkt sérstaklega og sálfræðingum á heilsugæslu, geðheilsuteymum og meðferðarúrræðum við geðvanda fjölgað. Samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að auka framlög til geðheilbrigðisþjónustu, þ.m.t. barna- og unglingageðdeildar í áföngum til ársins 2022,“ segir í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Blóðug vaxtagjöld

Skuldir ríkisins lækka á milli ára en árið 2017 lækkuðu þær um 233 milljarða króna frá fyrra ári. Í lok árs 2018 er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði 859 milljarðar króna, á því lækka skuldirnar um 36 milljarða króna. Nettó skuldahlutfall ríkissjóðs verður 26,7% af landsframleiðslu í lok árs 2018 og skuldir á hvern íbúa 2,6 milljónir króna. Heilbrigðis- og velferðarútgjöld hækka að raungildi um 4,4% að sögn fjármálaráðherra.

Vaxtagjöld lækka um 4 milljarða og verða 150 þúsund krónur á hvern einstakling árið 2018. Benedikt sagði þó á fjölmiðlafundi að það væri blóðugt hve há vaxtagjöld væru hér á landi, þrátt fyrir að það hafi tekið vel að lækka vexta, þá séu þeir of háir að mati fjármálaráðherra. Gert er ráð fyrir að skuldir lækki áfram hratt á árinu 2018, eða um 36 milljarða en ráðgert að skuldir hins opinbera fari niður fyrir 30% árið 2019.