Rafíþróttamótið Mid-Season Invitational í fjölspilunarvígvallarleiknum (e. MOBA) vinsæla League of Legends – það stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum – verður haldið í Laugardalshöllinni í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu.

Leigðar verða um 8.000 gistinætur fyrir alls um 400 manns sem verða á landinu í tæpan mánuð í tengslum við mótið, sem búist er við að um hálfur milljarður manns muni horfa á einhvern hluta af. Um 150 milljón áhorfendur verði á úrslitaleikinn. „Þetta er viðburður af stærðargráðu sem við bara þekkjum ekki á Íslandi," segir Ólafur Hrafn Steinarsson formaður Rafíþróttasamtakanna.

15 borgir sóttust eftir því að fá að halda mótið. Auk League of Legends keppninnar verður í fyrsta sinn haldið alþjóðlegt mót í fyrstu persónu skotleiknum Valorant, sem gefinn er út af útgefanda League of Legends, Riot games.

„Það er margt sem fylgir þessu, það þarf að hugsa um landvistarleyfi fyrir alla spilarana sem koma hvaðanæva að úr heiminum, það þarf að hugsa um sóttvarnir og svo framvegis. Þetta er því kannski ívið stærra en Rafíþróttasamtök Íslands. Samtökin koma þó að málum og aðstoða eftir getu og þörfum.“

„Þetta kemur til vegna árangurs okkar gegn faraldrinum, og því hvernig rafíþróttir hafa verið uppbyggðar hérna á síðustu tveimur árum, sem hafa komið okkur í umræðuna á alþjóðavísu,“ segir hann, en Tölvuleikjaðinaðurinn velti meiru í fyrra en tónlist, kvikmyndir og streymisveitur til samans.